Ég á þægindahring og vil helst ekki yfirgefa hann. Það að vera örugg er góð tilfinning. En stundum er hollt að gera eitthvað sem maður er ekki öruggur með, skora aðeins á sjálfan sig. Það getur samt verið erfitt!
Þægindahringurinn getur staðið fyrir svo margt í daglegu lífi. Þessa dagana reynir mest á minn þægindahring í ræktinni.
Það kemur oft fyrir á æfingum að ég þarf gera hluti sem ég mikla mikið fyrir mér... Æfingar sem ég efa sjálfa mig um að ég hafi getu eða styrk til að framkvæma þær.
... Röddin: "Glætan að þú getir þetta!" öskrar í höfðinu á mér... auðveldasta leiðin væri bara að bakka og labba í burtu... En það að velja alltaf auðveldustu leiðina er ekki endilega það besta.
Þegar ég tek þunga skrefið út fyrir hringinn þá þarf ég að kæfa neikvæðu röddina og grafa eftir jákvæðu og hvetjandi röddinni, "Koma svo! Þú getur allt!" ... Stundum finn ég ekki röddina, og held mig bara á mínu örugga svæði... en svo kemur það fyrir að ég finn röddina og þorið... Anda djúpt... Og oftar en ekki kem ég sjálfri mér á óvart að ég hafi yfirstigið hindrunina... og hún var bara alls ekki eins erfið og ég var búin að búast við.
Þegar það heppnast hjá mér, að stíga út fyrir, þá finnst mér ég hafa sigrað heiminn! Tilfinningin er æðisleg!
Við lifum í samfélagi þar sem álit annarra skiptir okkur allt of miklu máli.
Afhverju leggjum við ekki meiri áherslur á okkur sjálf í staðin fyrir að pæla í hvað öðrum finnst um mann sjálfan? Álit annarra á ekki að trufla okkur í því sem við viljum gera.
Ef einhver segir þér að þú getir ekki... eitthvað Sannaðu fyrir hinum sama að hann hafi rangt fyrir sér!
Ég er stöðugt að réttlæta það fyrir öðrum afhverju ég vilji lyfta lóðum og verða sterkari. Sem mér finnst kjánalegt því að það á ekki að skipta neinu máli fyrir aðra hvað ég er að gera, nema ef áhuginn er jákvæður... Ég fæ ennþá neikvæðar spurningar hvort ég ætli að verða eins og einhver sterakelling? Hvort ég vilji frekar vera vöðvuð heldur en mjó? Hvort mér finnist virkilega fallegt að vera kona með vöðva?...
Ég verð aldrei sterakelling, ég vil verða heilsuhraust og sátt við sjálfa mig! Ég mun aldrei verða mjó, en grennri og flottari í vextinum! Og já! Mér finnst fallegt að vera kona með vöðva!
Til þess að ná mínum markmiðum þá þarf ég að taka á honum stóra mínum og gera kjánalega, erfiða og jafnvel óyfirstíganlega hluti (að mínu mati)! Ég þarf að yfirgefa minn þægindahring og örugglega oftar en ég mun þora! En ég get, ég ætla og ég skal!
Þetta er hluti af stóra púsluspilinu mínu... og þessi hluti af því spili mun komast á réttan stað að lokum.
Ég get allt! ;)
No comments:
Post a Comment